Wednesday, June 25, 2008

Tvær sýningar Jóhönnu Bogadóttur á Siglufirði

„Á vegum hafsins“ er heiti sýninga sem Jóhanna Bogadóttir opnar nú á fimmtudaginn 3. júlí. Önnur verður opnuð í Gallerí Gránu Síldarminjasafninu klukkan 17:00 og hin í Ráðhússalnum kl. 18:00.Allir íbúar Fjallabyggðar og gestir eru velkomnir. Þarna verða málverk, grafík og teikningar sem falla að þema um hafið og lífsbaráttuna en það hefur löngum verið mikilvægt í verkum Jóhönnu. Þar eru hughrifin bæði sprottin úr uppruna og uppvexti í Vestmannaeyjum og á Siglufirði og frá ferðum á framandi slóðir. Átökin við náttúruöflin geta einnig verið myndlíking fyrir lífsbaráttu mannsins hvar sem er. Hughrif utan úr heimi, frá suðrinu eru líka þáttur í þessari sýningu. Hluti verkanna er unninn úr skissum frá vesturströnd Afríku, frá vinnustofudvöl á ströndinni í Benin þar sem róið er til fiskjar á opnum bátum frá brimsorfinni hafnlausri strönd. Einnig frá skoðunarferðum í byggð á staurum úti í vatni sem minna óneitanlega á staurabyggð síldarplananna. Eitthvað verður af ljósmyndum til að sýna tengslin. Jóhanna hefur sýnt víða um heim og hafa verk eftir hana verið keypt á söfn og stofnanir ýmissa landa. Hún hefur sýnt áður á Siglufirði um fimm sinnum og dvaldi þar oft sumarlangt á bernsku og æskuárum og kynntist síldaræfintýrinu af eigin raun.Sýningarnar standa til 4, ágúst og sú á Gránulofti Síldarminjasafnsins er opin á opnunartíma safnsins en sú í Ráðhúsinu alla daga frá kl. 16:00 til 18:00.